.


Kóngar í ríki sínu

 

Lalli og Jói eru ólíkir og búa við ólík kjör. Lalli er einkabarn vel efnaðra foreldra, býr í fallegu húsi og mamma hans stjanar í kringum hann. Hann er duglegur að læra en frekar lítill í sér. Hann lítur mjög upp til Jóa, sem er stór og sterkur, úrræðagóður og kjarkmikill. Jói býr í litlu, gömlu húsi hjá einstæðri móður og ömmu, sem er mikið skass.

 

 

Kolur og Branda

Jói hafði fundið "kattarhreiður" í fjallinu fyrir ofan bæinn. Kettlingarnir voru hálfdauðir úr hungri og kulda en Lalli og Jói tóku að sér sinnhvorn kettlinginn. Lalli fékk þann bröndótta og skírði hann Bröndu, en Jói fékk stóra svarta kettlinginn og skírði hann Kol.

 

 

Mamma hans Lalla

Skólinn er búinn og komið sumarfrí. Mamma Lalla skoðaði einkunnabókina hans: "Þú verður nú einhvern tíma mikill maður fyrst þú ert svona duglegur í skólanum. Kannski verðurðu ráðherra eða jafnvel forseti, hver veit!" sagði mamma. Svo gaf hún Lalla nýtt hjól í verðlaun.

 

 

Jói að dorga

Jói hugsaði lítið um skóla og einkunnir. Hann var niðri á bryggju að dorga. Hann sagði Lalla svolítið leyndarmál. "Ég fann kattarhreiður" sagði hann. "Villikött með sjö kettlinga. Ég ætla að sjóða þessa fisktitti og færa kisumömmu. Hún getur aldrei veitt nóg af músum og fuglum handa sjálfri sér og líka hugsað um alla þessa kettlinga."

 

 

Amma Kata í kasti

En þegar þeir komu heim til Jóa með fiskana var amma Kata í kasti. Hún rak upp öskur, varð eins og rauður belgur í framan og engdist sundur og saman af einhvers konar hlátri. "Iss þessar ömmur. Þær hlæja eð engu og rífast út af engu," sagði Jói og lét sem ekkert væri. Lalli var alltaf dálítið smeykur við þessa gömlu konu.

 

 

Jói sér nýja hjólið hans Lalla

Lalli hefur fengið nýtt hjól sem verðlaun fyrir að vera með hæstu einkunn í bekknum. Hann kærði sig ekkert um að vera á flottu hjóli. Hann vildi bara eiga gamla hjólið sitt og vera eins og aðrir krakkar. En Jói varð himinlifandi og vildi kaupa gamla hjólið hans. "Ég get orðið sendisveinn og farið með vörur heim til gamals fólks fyrir kaupmanninn ef ég á hjól," sagði Jói.

 

 

Mamma hans Lalla

Þeir voru í garðinum heima hjá Lalla og töluðu um kofann sem þeir ætluðu að byggja. Þá kom mamma hans Lalla með gosdrykki og súkkulaðikex út í garðinn. Hún brosti blítt til strákanna: "Borðið nú elskurnar mínar," sagði hún eins og þeir væru pínulítil börn. Jói roðnaði. Hann var feiminn við mömmu hans Lalla. Hún var svo falleg og fín.

 

 

Lalli skoðar hvolpa

Mamma Lalla átti von á barni og pabbi Lalla hafði ákveðið að Lalli skyldi fá hvolp því þau höfðu áhyggjur af því að Lalli yrði afbrýðisamur þegar hann eignaðist lítið systkin. En ef hann fengi hvolp þá hefði hann eitthvað annað til að hugsa um. Lalli fór með pabba sínum að skoða hvolpana. Hann valdi sér strax einn þeirra. Mamma og pabbi vissu ekki að Lalli var líka búinn að eigna sér lítinn kettling. Hann vonaði bara að þau yrðu ekki reið þegar þau kæmust að því.

 

 

Barnið fæðist

Það var komið að því að mamma Lalla eignaðist barnið. Pabbi spanaði um allt hús og kom svo með litla ferðatösku inn í stofu. "Komdu elskan, ég skal keyra þig upp á spítala í hvelli," sagði hann við mömmu.

 

 

Jói gistir hjá Lalla

Lalli var óvanur að vera einn heima. Pabbi hans var uppi á spítala hjá mömmu og hann fékk Jóa til að sofa hjá sér svo hann þyrfti ekki að vera aleinn í húsinu. Jói sagði honum að hann hefði farið upp að kisuhreiðrinu en þar hefði engin kisumamma verið. Kettlingarnir voru orðnir kaldir og svangir. Strákarnir ætluðu að fara aftur næsta dag og reyna að bjarga þeim.

Jói sofnaði um leið og hann lokaði augunum en Lalli lá lengi og hugsaði. Það hafði svo margt gerst í dag, svo ótrúlega margt. Á morgun verður hann kannski búinn að eignast litla systur eða bróður, svo fær hann bráðum hvolp og - já líka lítinn kettling!

 

 

Hjá hreppstjóranum

Lalli og Jói ætluðu að byggja kofa og nú báðu þeir hreppstjórann um leyfi því annars myndu hreinsunarkarlarnir líta á kofann sem drasl. Lalli var feiminn við hreppstjórann og horfði bara á gólfið en Jói var mannalegur og sagði að þeir vildu byggja svolítinn kofa ef þeir fengju leyfi. Hjá hreppstjóranum fengu þeir líka að vita að nú væri búið að skjóta alla villiketti í bænum. Þá vissu þeir að litlu kettlingarnir í fjallinu ættu ekki lengur mömmu og myndu drepast ef ekkert væri að gert.

 

 

Litla systir

Lalli hafði eignast litla systur. Hann fór að heimsækja hana upp á spítala. Höfuðið á henni var ekki stærra en appelsína og svo var hún sköllótt. Lalli starði á þessa litlu veru. Aldrei hafði hann séð annað eins. En þá opnaði litla systir augun og horfði á hann. Hann fékk allt í einu tár í augun. Hún er næstum eins falleg og lítill kettlingur, hugsaði hann.

 

 

Hrekkjusvín

Lalli og Jói höfðu verið allan daginn að hjóla með spýtur í kofann sinn en þegar þeir fóru síðustu ferðina komu þrír stórir strákar og hjóluðu í veg fyrir þá. "Hvar hafið þið stolið þessum spýtum?" spurði sá stærsti. "Við höfum ekki stolið þeim," svaraði Jói þrjóskur. En stóru strákarnir tóku kerruna og hvolfdu úr henni á götuna. Þeir spörkuðu spýtunum um allt og reyndu að brjóta þær.

 

 

Búið að eyðileggja kofann

Stóru strákarnir höfðu líka eyðilagt kofann þeirra. "Ég vissi alveg að þeir myndu gera þetta," sagði Jói. "Við látum þá fá að kenna á því í nótt. Við sendum þeim bara draug."

 

 

Amma Kata var öskureið

Amma Kata æddi um eldhúsgólfið, eldrauð í framan og augun í henni glóðu af illsku. Hún stappaði í gólfið, pataði höndunum út í loftið og blótaði hroðalega.

 

 

Það var af því að mamma hans Jóa var dauðadrukkin

"Skárri eru það lætin í þér kerling," sagði mamma hans Jóa. Hún var klædd í gamlan og rifinn slopp og Lalli sá að hún var dauðadrukkin.

 

 

Draugagangur

Lalli setti rottuna á veiðistöng. Þegar allt var tilbúið henti Jói litlum steinum varlega í gluggann hjá stráknum sem hafði eyðilagt kofann þeirra.

 

 

Síðan tók hann draugahausinn sem var á enda langrar spýtu og lét hann liggja við gluggarúðuna og með hinni hendinni tók hann langa rörið og setti það við gluggann. Lalli rétti upp veiðistöngina og lét rottuna lafa innum opna gluggann. Svo skar hann á línuna svo að rottan datt inn, en Jói hvæsti í rörið og sagði með óhugnanlegri rödd: "Ég kem til þín á hverri nóttu ef þú hagar þér ekki betur og hættir ekki að hrekkja og stríða."

 

 

Branda

Lalli átti nú lítinn kettling og bráðum fengi hann líka hvolp. Hann ætlaði að ala þau upp saman. Hann hafði kviði því að mamma og pabbi myndu ekki leyfa honum að eiga bæði dýrin, en þau sögðu ekkert við því.

 

 

Kisan Branda og hvolpurinn Rola

Lalli átti nú bæði hvolp og kettling. Branda var svo dugleg og sæt en hann var ekki ánægður með hvolpinn.

"Hvað er eiginlega að hvolpinum?" spurði Jói. "Mér finnst hann ógeðslegur," sagði Lalli. "Hann er andfúll og svo slefar hann og nagar allt. Á kvöldin vælir hann og grenjar og hættir ekki fyrr en ég er búinn að taka hann upp í rúm til mín. Svo pissar hann stanslaust. Það er eins og það renni bara frá honum pissið. Ef ég set hann ofan í kassann þá vælir hann og grenjar. Svo vill hann ekki vera á gólfinu nema hafa teppi undir löppunum, annars grenjar hann. Og nú er rúmið mitt allt hlandblautt eftir hann."

 

 

Veislan í kofanum

Strákarnir höfðu endurbyggt kofann og nú ætluðu þeir að halda þar veislu. Þeir höfðu hitað kakó heima hjá Jóa og amma Kata hafði auðvitað hjálpað þeim pínulítið. Nú stóð kakóið í hitakönnu við kofann ásamt nokkrum bollum. Í veisluna komu mamma og pabbi hans Lalla, amma Kata og mamma hans Jóa. Einnig komu litla systir, kisan Branda og hvolpurinn Rola.

"Ég er nú bara alveg undrandi á því hvað þetta er huggulegt hjá strákunum. Ég hélt að strákar á þessum aldri kynnu ekkert nema að slást, en svo hafa þeir sett á stofn heilan búgarð," sagði mamma hans Jóa.

Til Baka



Krass ehf. | Brúnavegur 9, 104 - Reykjavík | Sími 862-3642