.


Kóngar í ríki sínu og prinsessan Petra

 

Fleiri persónur bætast nú í hópinn. Petra og afi hennar, Pétur rithöfundur, flytja í lítið hús sem stendur rétt utan við þorpið. Þetta er dularfullt hús...

 

 

Jói, Petra og Lalli

 

 

Lalli og Jói

Lalli ætlar að sýna Jóa dularfulla húsið. "Hvað er svona dularfullt við það?" spyr Jói. "Ég ætla ekki að segja þér það, ég ætla að SÝNA þér það," sagði Lalli.

 

 

Petra prinsessa

Það var komin ný stelpa í bekkinn. Hún átti heima í dularfulla húsinu. Hún var öðruvísi en allar aðrar stelpur, svo mjó með hárið niður á rass og gekk í snjóhvítum fötum. Hún talaði stanslaust, hló og var ánægð með sig. Jói gat ekki hætt að horfa á hana, en Lalla fannst hún bara asnaleg.

"Ég skilja íslensku. Mamma mín er íslensk. En ég tala bara svo agalega vitlaus," sagði Petra á skrýtinni íslensku og horfði brosandi á krakkana í bekknum.

 

 

Petra á skíðum

Stundum, þegar veðrið var gott, fóru allir krakkarnir í skólanum á skíði. Líka Petra. Petra klöngraðist um á stóru skíðunum hans afa síns. Hún gat varla hreyft sig án þess að detta og það þótti henni alveg rosalega sniðugt. En afi hennar sagði að litlar, sætar dömur ættu ekki að vera á skíðum, því að þær myndu bara brjóta sig og bramla.

 

 

Inni í dularfulla húsinu

Lalli og Jói voru forvitnir og vildu sjá hvað væri inni í dularfulla húsinu þar sem Petra og afi hennar Pétur rithöfundur bjuggu. Dag nokkurn tókst þeim að laumast inn í húsið. Þeir fundu herbergið sem var með beinagrindina í glugganum. Þar var ýmislegt fleira. Þar voru styttur, grímur og beinagrindurnar sem störðu á þá og það glampaði illilega á augun í þeim. Var eitthvað af þessum hryllingi lifandi? Allt í einu lokuðust dyrnar og hurðin skall í lás. Þeir voru læstir þarna inni!

Heimilislífið hafði breyst mikið hjá Lalla. Nú átti hann litla systur, hund og kött. Mamma hans hafði nú ekki lengur tíma til að fylgjast með öllu sem hann gerði og það gaf honum meira frelsi. En hann var stundum í vandræðum með dýrin sín. Hún Branda vildi helst alltaf fara upp í vögguna hennar Lovísu litlu systur og þá varð mamma alveg öskureið. Svo átti hún það til að koma heim með ýmislegt eins og t.d. lifandi mús. Lalli vissi að það leyndist mús í eldhúsinnréttingunni, sem Branda hafði komið með heim, en hann gat ekki náð henni. Nú var hann dauðhræddur um að mamma kæmist að þessu og léti svæfa Bröndu hjá dýralækninum. Honum fannst stundum eins og mömmu væri ekki vel við Bröndu.

 

 

Mamma sér músina

Branda vildi hjálpa til á heimilinu og koma með eitthvað í matinn. Lalli heyrði oft í litlu músinni krafsa inni í eldhússkápunum. Hann vissi að mamma myndi senda Bröndu til dýralæknissins ef hún vissi af músinni. Og einn daginn sá mamma Bröndu vera að leika sér með músina. Vesalings litla músin skalf og nötraði, en Lalla fannst eins og Branda væri skellihlæjandi. "Oooo þessi hryllilegi köttur, það ætti að senda hann til dýralæknis," sagði mamma og skutlaði Bröndu út um dyrnar.

Jói hafði aldrei átt pabba því að pabbi hans hafði dáið rétt áður en hann fæddist. En nú hafði mamma hans hitt annan mann, hann Símon, og ætlaði að giftast honum. Það fannst Jóa ekki gott því að Símon bjó í öðrum bæ og mamma hans ætlaði að flytja þangað og taka Jóa með sér. Jói spurði mömmu sína af hverju hún gæti ekki bara gifst kaupmanninum. Hann vissi að kaupmaðurinn var góður maður og átti enga konu. Ef hún giftist honum þyrftu þau ekki a flytja úr þorpinu. En mamma hans hafði engan áhuga að giftast kaupmanninum og sagði að hann væri bara gamall karlfauskur. Lalli og Jói kviðu mikið fyrir þegar Jói þyrfti að flytja burt úr þorpinu. Þeir átti enga aðra vini en hvorn annan. En kannski var það verst með ömmu Kötu sem nú yrði alein í litla, gamla húsinu sínu. Já, það var ekki gott fyrir gamla konu að vera alein og þegar Jói flutti í burtu lagðist hún í rúmið og vildi ekki lifa lengur.

 

 

Amma Kata

En Jói kom aftur heim til ömmu Kötu. Þegar hún sá Jóa varð hún kát og glöð. "Ég fer nú ekki að deyja núna. Hver ætti þá að skamma þig paddan mín?" sagði hún.

 

 

Rola með hvolpana sína

Það var æsileg nótt hjá Lalla þegar Rola eignaðist fjóra hvolpa. Hún hljóp vælandi um allt húsið, en á gólfinu lágu lítil dýr sem líktust helst blautum rottum. Þetta voru hvolparnir hennar Rolu. Lalli tíndi þá upp og færði þá til mömmu sinnar. Þá var eins og Rola skildi loksins að þetta voru börnin hennar og hún var orðin mamma.

Hvolparnir voru farnir að hreyfa sig. Þeir bröltu um valtir á fótunum og Rola var sæl á svip. Lalli hugleiddi hvað það var nú í rauninni stutt síðan Rola var sjálf lítill hvolpur. Hún hafði verið stór og loðin klessa, andfúl og leiðinleg en smám saman hafði hún breyst í fallegan og skynsaman hund og nú var hún orðin mamma.

Til BakaKrass ehf. | Brúnavegur 9, 104 - Reykjavík | Sími 862-3642